top of page
Search
  • Stellar Walks

Ævintýralegu gróðurhúsinÞegar maður gengur í gegnum gróðurhúsin í Laeken líður manni einna helst eins og litlum kólibrífugli í suðrænum skógi. Litadýrðin er alls ráðandi og eftir því sem gengið er áfram taka við nýjar og nýjar tegundir blóma og gróðurs. Gróðurhúsin sjálf eru 15 risavaxnar glerhallir sem minna á forn fuglabúr með turnum og hvelfingum. Gestir ganga ýmist í gegnum yfirbyggðar og blómum þaktar gönguleiðir sem tengja gróðurhúsin eða um garð konungshallarinnar.


Gróðurhúsin eru hugarfóstur Leopolds II konungs Belga sem vildi reisa mikilfengleg gróðurhús við konungshöllina. Hann fékk arkitektinn Alphonse Balut til að hanna gróðurhúsin fyrir sig. Það tók 31 ár að ljúka verkefninu sem lauk loks árið 1905. Úr varð einstök glerborg sem seinna varð stór liður í innblæstri fyrir Art Nouveau hreyfinguna í Brussel og um allan heim, en lærlingur Balut var Victor Horta sem síðar varð lykilhönnuður innan Art Nouveau stefnunnar.Þegar Leopold II bauð til veislu í höllinni voru þær oft haldnar í Banquet gróðurhúsinu. Gestirnir gengu inn um Embarcadére gróðurhúsið og hengdu af sér. Gangan til veislu sem lá í gegnum gróðurhúsið skapaði tilkomumikla og dulúðarfulla stemningu fyrir kvöldið. Innangengt er úr höllinni í gróðurhúsin og þannig mætti hinn hávaxni konungur gestum sínum. Tignarlegur í fullum skrúða birtist hann á milli framandi blóma og pálmatjáa. Þetta var maður sem kunni að mæta til veislu!


Úr Embarcadére er hægt að ganga upp breiðar tröppur í Kongó gróðurhúsið. Fyrir miðjum tröppunum er stór brjóstmynd af Leopold II, staðsett svo hún gnæfir yfir þeim sem upp tröppurnar ganga. Þekki maður eitthvað til sögu Belgíu, og sér í lagi Leopolds II, þá er ekki hægt annað en að finna kaldan hroll hríslast niður bakið. Leopold II gerði Kongó að sinni einkanýlendu árið 1885 og framdi þar ein hryllilegustu og vægðarlausustu fjöldamorð í mannkynssögunni. Staðsetningin á brjóstmyndinni við innganginn í Kongó gróðurhúsið er ekki tilviljun. Svo kaldhæðnislega vill til að plönturnar sem hann lét flytja frá Kongó þrifust ekki í gróðurhúsinu. Þær visnuðu og dóu.


Gróðursafnið sjálft er einstakt að mörgu leyti en margar sjaldgæfar og dýrmætar plöntur sem Leopold II lét flytja hingað víðsvegar að úr heiminum eru enn til staðar. Yfirbragðið er þó afslappað og mikil ró sem fylgir því að ganga í gegnum húsin. Vinnan að baki þessu öllu er engu að síður gífurleg. Við gróðurhúsin starfa 15 garðyrkjumenn í fullu starfi allt árið til þess að allt sé í blóma á vorin þegar gróðurhúsin eru opnuð almenningi.


Gróðurhúsin eru því miður aðeins opin í þrjár vikur á ári en nú líður að opnun þeirra á föstudaginn langa. Ferðalangar sem eiga leið til borgarinnar á tímabilinu 19. april til 10. maí og vilja láta sig líða í gegnum völundarhús með dansandi blöndu af lyktum og litum ættu ekki að láta þetta framhjá sér fara!

20 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page