top of page
Search
Stellar Walks

Hvernig halda Belgar upp á Saint Nicholas?

Updated: Apr 16, 2019



Spennan magnast

Á morgun, fimmtudaginn 6. desember, verður heilögum Nikulási fagnað í Belgíu, Hollandi og Lúxemborg. Sinterklaas eða Saint Nicholas býr reyndar á Spáni stærstan hluta ársins, eins og sannur eftirlaunaþegi en hann kemur til byggða 20 dögum fyrir hátíðisdaginn mikla. Líklegast til að minna rækilega á sig og gefa óþekku börnunum tækifæri til að bæta ráð sitt. Hann kemur með bát sínum frá Spáni og kastar akkerum í Antwerpen í Belgíu og Rotterdam í Hollandi (líklegast eineggja tvíburar). Þar tekur á móti honum mannhaf af sveittum foreldrum og hysteriskum börnum. Sveinki gamli spásserar með mikilli viðhöfn um bæinn með fylgdarliði sínu og veifar konunglega til mannhafsins, allt í beinni útsendingu.

Frá komu hans og fram til 6. desember eru öll belgísk börn gjörsamlega á röngunni við að reyna að haga sér og sitja sveitt með krampakenndar fingur við bréfaskriftir til hans með málflutningi um eigið ágæti ásamt óskum um margskyns gjafir og verðlaun.

Dómsdagsnóttin

Nátttröllið og gamalmennið fer í húsvitjanir sínar í skjóli nætur aðfaranótt 6. desembers og þykist fara huldu höfði. Sjálf myrkraverkin sér hann ekki um sjálfur heldur útvistar subbulegasta hlutanum, að fara niður skorsteininn, til Zwarte Piet sem er fórnfús aðstoðarmaður hans.

Fyrir háttatíma eru börnin búin að setja sokk á arininn eða skó fyrir framan, og fylla af gulrótum, og piparkökum til að ýta aðeins undir velvild hans í sinn garð (aðferðafræði sem við Íslendingar þekkjum mjög vel). Gangi þessar mútugreiðslur vel fyrir sig fá þau gjafir, speculoos piparkökur og súkkulaði í sokkinn sinn (sem vonandi er vel þveginn). Hafirðu ekki hlotið náð og fyrirgefningu þá setur Zwarte Piet þig í pokann sinn og fer með þig til Spánar. Ég veit ekki með ykkur en það hljómar eins og góður díll að mínu mati.

Eftir erfiða næturvakt og ofát af piparkökum, lætur hann sig hverfa aftur til Spánar næstu 11 mánuði til að jafna sig.

Á jóladag eru einnig gefnar gjafir en þá í nafni fjölskyldumeðlima. Misjafnt er milli heimila og svæða í Belgíu hvor dagurinn færir manni mestu uppgripin en eitt er víst að allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta tvisvar í desember.

57 views0 comments
bottom of page