top of page
Search
  • Stellar Walks

Carnaval de Binche hefst í dag!

Updated: Apr 16, 2019


Carnaval de Binche, eða kjötkveðjuhátíðin í Binche, er afar sérstök þriggja daga hátíð sem hefst í dag. Aðal hátíðardagurinn er þriðjudagurinn. Ég mæli eindregið með að þú látir þetta ekki framhjá þér fara!


Hátíðin er hluti af kaþólsku kjötkveðjuhátíðinni sem markar upphaf 40 daga föstu fyrir páska og hefst á öskudegi. Dagarnir á undan föstunni einkennast af fögnuði og að njóta þess sem síðar verður bannað. Kjötkveðjuhátiðin er haldin í mörgum borgum í Belgíu og hefðin er svo mikilvægur partur af belgískri menningu að þátttakendur taka heilt ár í undirbúning.


Þriðjudagurinn

Kjötkveðjuhátíðin í Binche er þó fyrir löngu búin að marka sér sérstöðu fyrir metnað og sterkar hefðir. Skrúðgangan samanstendur af fígúrunum Peasants, Pierrots, Harlequins og aðal hetjunum Gilles. Hóparnir (kölluð samfélög) ganga saman í einni þvögu dansandi við trommuslátt og tónlist hljómsveitar sem fylgir þeim hvert sem farið er. Gilles má ekki ganga einn um bæinn þennan dag, honum þarf alltaf að fylgja einn trommari svo það er eins gott að vera ekki gjarn á að fá mígreni.

Í upphafi dags ganga Gilles um í skrautlegum búning, í tréklossum og með sérstaka vax grímu á meðan þeir slá í götuna með kústi til að hrekja burtu vetrarkuldan. Fyrri gangan endar í ráðhúsinu þar sem þeir fara í veislu til borgarstjóra.

Seinni partur dagsins er hins vegar hápunkturinn. Gilles hafa þá tekið af sér grímurnar og aðal skrúðgangan hefst. Allar fígúrurnar taka þátt og kasta litlum appelsínum til áhorfenda. Af styrk og skotgleði þeirra að dæma er hreinlega merkilegt að belgíska landsliðið í handbolta sér ekki öflugra. Búið er að byrgja fyrir alla glugga í götunum með sterkum grindum eða viðarplötum. Takist manni að grípa appelsínu frá þeim og forðast að rotast, þá boðar það gæfuríkt ár fyrir viðkomandi.


Klukkan 8 um kvöldið hittast allir á aðal torgi bæjarins þar sem spiluð eru kjötkveðjulög og kveikt á stjörnuljósum. Þetta markar endalok hátíðahaldanna og til að slá lokatóninn er haldin flugeldasýning.

Ég mæli með að leggja snemma af stað á þriðjudeginum því miðbærinn er að mestu lokaður fyrir umferð og bílastæði þar í kring eru fljót að fyllast. Ekki láta það þó aftra þér í að fara, þetta er vel þess virði að sjá og upplifa.

62 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page