Samgöngur
Til og frá flugvelli
Alþjóðaflugvöllurinn í Zaventem er staðsettur um 12 km frá miðbænum.
Ferðatími með leigubíl, utan álagstíma, er um hálftími en þung umferð seinni hluta dags getur lengt ferðina töluvert. Fargjaldið ætti að vera u.þ.b. 45 Evrur.
Í kjallara flugvallarins er lestarstöð þaðan sem lestir fara á um 10 min fresti inn í miðbæ borgarinnar. Ferðin tekur um 18 min og kostar 8,90 Evrur. Með hverjum fullorðinsmiða geta allt að fjögur börn upp að 11 ára aldri ferðast ókeypis. Mundu að skanna miðann áður en farið er um borð í lestina. Miðana er hægt að kaupa á staðnum eða heimasíðunni belgiantrain.be
Rútur genga einnig inn í miðbæ og tekur ferðin um 30 min. Verðin fara eftir vegalengd og lægsta verðið eru 3 Evrur. Rúturnar eru á hæðinni fyrir neðan komusal (level 0).
Leigubílar og Uber
Leigubíla er almennt auðvelt að finna á fjölförnum stöðum. Gjaldmælirinn byrjar yfirleitt í 2,40 Evrur og svo 1,80 Evra á km. Grunnjaldið hækkar á kvöldin og um helgar. í 4,40 Evrur. Leigubílar eiga að taka kort en það er vissara að kanna það áður en lagt er af stað með bílnum. Þeim ber að gefa kvittun við lok ferðar.
Uber er löglegur í Belgíu og lítið mál að nýta sér þá þjónustu.
Almenningssamgöngur
STIB veitir allar almenningssamgöngur í borginni: metro, sporvagnar og strætó. Hafa ber í huga að flatarmál miðborgarinnar er ekki stórt og auðvelt að komast á milli helstu staða gangandi. Ætlir þú að nota almenningssamgöngur mikið er ágætt að kaupa hlaðanlegt MOBIB kort sem seld eru í sölubásum á metrostöðvum eða gegnum GO Easy. Með slíku korti kostar ferðin 2,10 Evrur í stað 2,50 Evrur fyrir stakan miða. Ferðin er opin í 60 min og þú getur skipt á milli leiða eða ferðamáta eins og þér hentar. Mundu að skanna miðann við upphaf og lok ferðar .
Hjólaleiga
Í miðbæ Brussel getur umferðin oft verið mjög þung og þar af leiðandi kemst maður hraðar leiða sinna hjólandi. Víða um borgina má finna hjólaleigusöðvar frá ýmsum fyrirtækjum. Viss fyrirtæki eru ekki með sérstakar stöðvar fyrir hjólin heldur finnur maður nærsta hjól í gegnum app í símanum og leigir það þanngi sömuleiðis. Ekki þarf að skila hjólunum á sérstakar stöðvar heldur nægir að enda ferðina í appinu og leggja hjólinu svo það sé hvergi fyrir eða geti skemmst.
Hjólastígar eru víða þó svo oft geti maður lent í að stígurinn hætti skyndilega en þá þarf að færa sig út á akgrein. Það er góð regla að hafa varann á sem hjólreiðamaður í Brussel en því miður eru Belgar ekki allir mjög tillitsamir gagnvart hjólreiðamönnum. Hægriréttur er algengur og bílstjórar hika ekki við að láta sig gossa í beygjurnar ef þeir eiga réttinn.
Hlaupahjól
Eins og með hjólin þá er hægt að leigja sér rafmagns hlaupahjól, í gegnum app, vilji maður komast hratt yfir. Þessi valkostur er mun þægilegri en hjólin og býður upp á að nýta sér gangstéttir, hjólastíga og akgreinar. Ef þú ert á gangstétt má ekki nota hámarkshraða (rúmlega 20km/klst) og aðlaga sig að gangandi vegfarendum. Oftar en ekki er auðveldara að finna sér hlaupahjól en hjól. Ferðin kostar oftast um 2-3 Evrur, allt eftir því hversu langt maður fer.
Um þá sem ferðast á rafmagns hlaupahjóli gilda sömu reglur og hjólandi vegfarendur. Rigningarveður er algengt í Brussel og þá er gott að hafa í huga að sum undirlög geta verið sleyp.
Stellar Walks mælir helst með þessum ferðamáta. Létt, ódýrt, fljótlegt og maður sér borgina betur en ef maður fer með metro.