top of page

Um mig

Það má með sanni segja að Belgía hafi haft mikið aðráttardafl, leynt og ljóst í mínu lífi og mótað mig að svo mörgu leyti. Hér bý ég núna í þriðja sinn á ævinni og alltaf að uppgvöta eitthvað nýtt, spennandi og skemmtilegt sem þetta “litla og lítt þekkta" land hefur upp á að bjóða.

Stellar%20Walks-3_edited_edited_edited.p
Beauty in Natural Makeup

Ég flutti fyrst til Belgíu árið 1990 sem ung stelpa og gekk í kaþólskan skóla í Brugge. Í huganum var þetta eins og að vera heilt ár í franskri bíómynd sem gerist fljótlega eftir seinni heimstyrjöld, nema allir töluðu hið örlítið minna rómantíska tungumál flæmsku (sem í dag er kölluð hollenska til að fyrirbyggja langar útskýringar fyrir útlendingum). Bænir, stærðfræðipróf, skólabúningur, vasaklútar, kúluspil og mannasiðir var lífstíll sem lítil íslensk stúlka þurfti að vera fljót að tileinka sér. Brugge er jafnan talinn einn fallegasti staður í Belgíu og sumir ganga svo langt að segja í Evrópu (ég er klárlega ekki hlutlaus hvað það varðar). Að búa í eitt ár bókstaflega í hjarta slíkrar borgar er eitthvað sem gleymist aldrei enda ótrúleg forréttindi, og ég óska öllum þess heitt að fá að upplifa borgina þó ekki sé nema í einn dag.

Belgía varð heimili mitt í annað sinn árið 1998 þegar ég flutti til Brussel sem unglingur með fjölskyldunni minni og bjó þar í þrjú ár. Í þetta sinn var það Skandínavískur skóli og frönskumælandi belgískt handboltalið (eina kvennaliðið á öllu höfuðborgarsvæðinu) sem átti hug minn allann. Upplifunin einkenndist af mótsagnarlegum lífstíl Expata (stytting á expatriate) og hins venjulega frönskumælandi unga Belga. Hvort tveggja ákaflega mikilvægur þáttur í að skilja þetta fjölbreytilega land og hvernig fólk nýtur borgarinnar.

Hér er ég svo komin í þriðja sinn, nú sem fullorðinn einstaklingur með maka og börn. Belgía er mér afar kær og því vil ég deila með sem flestum. Borgin úir og grúir af litlum leyndarmálum, stórfenglegri sögu og menningu, viðburðir virðast vera endalausir og þó það væri nú ekki nema til að bara “njódda og livva”!

bottom of page